Aðventan er nú handan við hornið og margir farnir að huga að undirbúningi jólanna. Slíkur undirbúningur hefur oft setið á hakanum hjá mér og ávallt hef ég fundið afsakanir fyrir því, t.d. námsmaður í prófum, mikið að gera í vinnunni og fram eftir götunum. Raunin var þó önnur þetta árið. Fyrir nokkrum dögum bauð ég allra nánustu fjölskyldumeðlimum mínum í gríðarlegt aðventukaffi og endaði ég á að vera með tæplega 20 uppskriftir á boðstólum sem voru annaðhvort í formi skreytinga eða mismunandi útfærslum á sama réttinum.
Morgunblaðið sendi Árna Sæberg ljósmyndara á staðinn til að mynda herlegheitin (og bragða á kræsingunum) og ræddum við Júlía Margrét, blaðakona, um tilurð boðsins. Afraksturinn leynir sér ekki og má finna myndir og uppskriftir af kræsingum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þessa helgina (30.nóvember) en uppskriftirnar munu birtast hér á blogginu á næstu dögum.
Það má með sanni segja að hér er komin hefð til að vera og mega vinir og vandamenn búast við árlegu boði þann fyrsta í aðventu hér eftir!
Meðfylgjandi er smá skjáskot af opnunum tveimur í blaðinu en hvet alla til að kippa blaðinu með í næstu ferð.

