Að vanda hef ég ekki setið auðum höndum en ég varð fyrir því óláni korter í jól að harði diskurinn hjá mér gaf sig og smá bið eftir varahlutum. Ég fæ því að hoppa í tölvuna hjá betri helmingnum þess á milli sem ég nýti sjö ára gamlan þjark sem hefur ekki sömu snerpu og úthald og sú yngri og léttari. Það verður því smá bið í “uppgjör” ársins 2015…
Snúum okkur þó að því sem þið komuð til að lesa nánar um BÓNDADAGSTRUFFLUR!
Á dögum sem þessum er ávallt hægt að finna milljón ástæður til að gera vel aðra með einhverju móti. Ég fer yfirleitt bara eina leið og hún er með einhverju matarkyns… er ekki annars sagt að leiðin að hjarta mannsins sé gegnum magann?
Maðurinn minn er mikill viský aðdáandi sem og félagar hans, datt mér því í hug að gera trufflur með viský þegar ég var beðin um smá aðstoð með góðgæti fyrir strákana hjá Skeljungi í tilefni dagsins.
Ég hef gert töluvert af trufflum í allskonar stærðum og gerðum, ég fór þó á veraldarvefinn til að kanna hlutföllinn og fann þessa fínu uppskrift hjá Gimme Some Oven sem ég ákvað að nýta mér alla leið.
Af öllum þeim herramönnum sem smökkuðu herlegheitin í dag tel ég að hún hafi fengið a.m.k. 4 stjörnur af 5 mögulegum og læt hana fylgja hér með. Góða skemmtun og verði ykkur að góðu!
- 450 gr 70% súkkulaði Smátt saxað
- 80 ml Rjómi
- 2 msk Smjör Notaði ósaltað smjör
- 80 ml Kókos t.d. Chivas Regal 12 ára
- 1 tsk Sjávarsalt Gerir gæfumuninn í uppskriftinni
- 30 gr Kakó t.d. Nóa síríus, magnið er breytilegt, þar sem það fer eftir trufflunum
- 80 ml Visky
- Setjið súkkulaði, rjóma og smjör saman í skál yfir heitu vatnsbaði.
- Hrærið þangað til blandan hefur bráðnað og bætið því næst út í visýinu og sjávarsaltinu. Blandið þar til blandan hefur fengið fallega glansandi áhrif (gæti orðið hrufótt sem er í lagi).
- Setjið í hreint ílát og kælið. því flatari og meiri flöt sem súkkulaðið dreifist á því fyrr stífnar blandan og verður meðfærilegri.
- Búið til kúlur með ísskeið nr. 70 eða með höndunum. Mér finnst gaman að hafa þær bæði sléttar og grófar. Ef tíminn er naumur, leyfið þeim að vera grófar og hafið ekki áhyggjur af að jafna þær.
- Gerið 36-38 kúlur, veltið upp úr kakó og setjið í form eða beint á disk.
Trufflurnar geymast best í kæli og geymast þar í allt að viku í vel lokuðu íláti.
Upprunalegu uppskriftina má finna hjá Gimme Some Oven.