Ég vil byrja á að óska nýgiftu brúðhjónunum, sem fengu kökuna, innilega til hamingju með daginn! Það var virkilega gaman að fá að gera daginn örlítið eftirminnilegri með tertunni 🙂
Hér má sjá tertuna fullkláraða og á eftir kemur stutt lýsing á ferlinu og uppskrift að botnunum.
Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að baka botnana. Ég bakaði tvo stóra tvöfalda botna og tvo litla sem ég skar svo í tvennt svo úr yrðu fjórir einfaldir. Þar sem fyllingin var jarðaberjafrómas sem er að mestu leiti úr rjóma og gert ráð fyrir að kakan þyrfti að standa í nokkrar klukkustundir við stofuhita gerði ég nokkrar ráðstafanir. Ég byrjaði á að bleyta fyrsta botninn með safa af jarðarberjum úr dós og sprautaði svo litlum smjörkremshring á jaðarinn.
Þegar hringurinn er kominn, þá er hægt að setja frómasinn. Hringurinn er til að koma í veg fyrir að vökvi leki úr rjómanum þegar hann hitnar. Svona lýtur fyrsti botninn út eftir að safinn, smjörkremið og frómasinn eru komin á.
Svo er bara að halda áfram með næstu þrjá.
Þegar allir botnarnir eru komnir saman er best að smyrja kökuna með smjörkremi ef ætlunin er að setja sykurmassa yfir kökuna og ef hún á að standa í einhvern tíma við stofuhita. Það er hægt að smyrja hana með rjóma/frómas en þá er mun meiri hætta á að sykurmassinn bólgni út, blotni of mikið og rifni/leki af kökunni. Ástæðan fyrir þessu er sú að sykurmassi er byggður að miklu leiti á gelatíni (e. gelatin) og þegar það kemst í snertingu við mikinn vökva missir það eiginleikann sem gefur sykurmassa teygjanleikann sinn.
Hér er ég rétt að byrja smyrja:
Munið að vanda til verks þegar þið smyrjið kökuna því dældir og annað getur auðveldlega komið fram. Almennt eru íslendingar ekki miklir krem sjúklingar eins og þekkist í Bandaríkjunum en stundum er nauðsynlegt að setja meira en maður hefði gert venjulega, til að tryggja að útlitið sé í lagi (það er alltaf hægt að skilja smá af kreminu eftir þegar verið að borða 😉 ).
Þegar ég var búin að smyrja alla kökuna leit hún svona út:
Það er best að setja kökuna saman kvöldið áður ásamt því að smyrja hana og setja massan yfir daginn eftir. Þá getið þið séð hvort vökvi leki einhversstaðar og gert viðeigandi ráðstafafnir ef þörf er á. Sama ferli á við efri hæðina.
Daginn eftir ætti kakan og kremið að vera orðið nógu kalt og þétt til að geta sett sykurmassann yfir. Í þetta skiptið notaði ég SatinIce sykurmassa og þvílíkur draumur að vinna með hann. Þar sem hann er svo meðfærilegur og teygjanlegur þarf mun minna af honum heldur en heimagerðum (að mínu mati). Ég veit ekki hver upplifun annarra er en ég held að það sé varla aftur snúið hjá mér. Það er frábært að vinna með hann og hann er mjög bragðgóður, góð áferð þegar maður borðar hann og sparar ykkur tíma og pirring þegar sá heimagerði misheppnast.
Þegar búið er að þekja báðar hæðarnar getið þið hugað að því að setja þær saman. Ég notaði kökuprik (dowels) til að setja inn í kökuna sem efri hæðin situr svo ofan á. Þannig getið þið komið í veg fyrir að kakan falli saman. Þetta á þó frekar við mjúkar kökur, t.d. svampbotna, rjóma og eftir því. Ég hef ekki þurft að nota þessa aðferð þegar ég geri súkkulaðikökur þar sem þær eru svo þéttar í sér. Svona leit þetta út hjá mér eftir að ég var búin að klippa niður þrjú prik af fjórum.
Eins og þið sjáið er ég með lítinn smjörpappírshring en ég notaði hann til að merkja stærðina og vera því með prikin á réttum stað eða innan við hringinn. Ég notaði svo svarta matartússinn minn til að merkja á prikin þar sem ég var hrædd um að tússa á kökuna og öfluga töng til að klippa þau í sundur. Ég var einnig með þennan smjörkremspappír á milli þegar ég setti efri hlutann á. Efri hlutinn var á þunnu gylltu kökuspjaldi og með því að hafa smjörpappírinn tryggði ég að spjaldið myndi ekki blotna og festast við kökuna.
Næsta skref var að setja hæðarnar saman og byrja að skreyta. Brúðurin sendi mér mynd af köku sem hún sá á mömmur.is og bað um svipað þema, svart og hvítt með blómum, hringjum og eftir því. Ég notaði ýmis áhöld við útskurðinn, til dæmis patchwork skera, stencil skera og blómamót en skrautið var gert úr gum paste. Ég litaði gum paste-ið ekki fyrirfram þar sem ég átti ekki góðan svartan matarilit (gleymdi honum í búðinni) en það hefði auðveldað vinnuna til muna. Ég á hinsvegar svo frábæra air brush græju (sagði frá henni hér) sem bjargaði þessu alveg og notaði ég minni matarlit fyrir vikið. Að sjálfsögðu væri hægt að kaupa svart matarsprey 😉
Hér sést svo fyrstu tvö skrefin, eitt blóm sem grunnur til að vinna út frá og ein “grein”:
Svo er bara að raða blómum, annarskonar mynstri eða því sem viðkomandi dettur í hug þangað til ykkur finnst vera komið nóg.
Hér er neðri hæðin komin og efri að byggjast upp hægt og rólega (veit að myndin er óskýr en vildi leyfa henni að sleppa í gegn ;)):
Hér fannst mér kakan vera tilbúin en síðasta skrefið var að sprauta svörtu súkkulaðismjörkremi hringinn kringum báðar hæðirnar. Skreytingin átti einungis að vera á um 1/4-1/3 hluta af kökunni.
Sjáið þið vanilludropaflöskuna í bakgrunninum…? Þessi er bráðnauðsynleg á öll heimili sem baka aðeins meir en hið venjulega heimi! Takið einnig eftir að það er eins og það vanti eitthvað á kökuna en styttan sem fór á kökuna gerði gæfumuninn. Hér kemur ein nærmynd af styttunni en mér finnst hún algjört æði! Mér skylst að hún hafi fengist í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut.
Hér kemur svo ein nærmynd af skrautinu, en þið getið séð fleiri myndir hér.
Hér er svo uppskrift af góðum svambotnum en þessi hefur reynst mér afar vel gegnum árin.
Uppskrift – Svampbotnar
- 4 stk egg
- 2 dl sykur
- 1 dl hveiti
- 1 dl kartöflumjöl
- 1-2 tsk lyftiduft
- Bragðefni eftir smekk (vanillu, sítrónu, möndlu osfrv.)
- Hrærið eggin með þeytara þangað til létt og ljós, bætið svo sykrinum við og tryggið að allt sé blandað saman áður en haldið er áfram
- Sigtið þurrefnin yfir skálina með sykureggjahrærunni og blandið varlega saman við (ég geri þetta með sleif eða öðru áhaldi)
- Bakist í ca 15-20 mín við 200°C*
*Þetta miðast við að baka allt í einu í ca 22cm hringformi, þá er botninn skorinn í sundur. Bakið í ca 10 mín ef baka á einn botn (helming af uppskriftinni).
Frábær brúðarterta 😉 Ég hef verið að leita að svona vanilludropum í stærri umbúðum í langan tíma……Hvar færðu svoleiðis?
Takk Rut!
Já, þessi flaska er sko búin að bjarga mér í bakstrinum. Ég fékk hana í Stórkaup (http://storkaup.is/) sem er við hliðiná Hagkaup í skeifunni.
Takk fyrir ábendinguna 😉
P.s Ótrúlega gaman að lesa og skoða kökublogg á íslensku, hlakka til að sjá meira frá þér.
svona vanilludropaflaska fæst næstum alltaf í Nettó á Höfn
Rosalega flott kaka 🙂 hvað ætli svona kaka dugi fyrir marga?
Heiða, þessi kaka var ca 30 manna en það voru fleiri veitingar í boði eins og brauðréttir. Hún dugði því mátulega fyrir 40 manna veislu þar sem voru fullorðnir og börn.
Pingback: Geggjuð tvíhliða brúðarterta | Kökudagbókin
[…] Ég hef áður sýnt og sagt ykkur stuttlega frá því hvernig sé best að stafla kökum með bambus stoðum og fer því ekkert nánar í það hér en ítreka þó mikilvægi þess að […]