Fleiri kökur voru gerðar fyrir þessa helgi enda nóg af veislum víðsvegar um borgina. Gulrótarkaka varð fyrir valinu að þessu sinni og verð ég að játa að ég hafði ekki gert gulrótarköku áður. Veit hreinlega ekki af hverju ég var ekki búin að gera hana fyrr þar sem mér finnst þær mjög góðar. Það varð þó loks af því en ég fór á uppskriftaveiðar og fann þessa frábæru uppskrift á Allrecipes.com.
Hér kemur svo mynd af kökunni með smá “gulrótarskrauti” 🙂
Ég notaði hringlaga opinn topp (#12) til að gera gulræturnar sjálfar og grastopp með tveimur götum (#42) til að gera endann á þeim. Þið getið notað nokkurn veginn hvaða opinn topp sem er, þ.e.a.s. hvaða framleiðanda eða stærð. Fer allt eftir því hversu stóra gulrót þið viljið 🙂 það eru líka aðrar leiðir til að gera “grasið” á gulrætur og því margir möguleikar í boði, allt eftir því hvað er til.
Hérna kemur svo smá nærmynd af gulrótunum.
Eins og þið sjáið er þetta ekkert ógurlega merkilegt í nærmynd en kemur skemmtilega út. Ég notaði sömu smjörkremsuppskrift og venjulega. Notaði venjulega appelsínugulan (orange) og laufgrænan (leaf grean) í grasið. Er í raun sama krem og ég notaði í grasið á Sveitakökunni sem ég sagði ykkur frá síðast.
Snúum okkur hinsvegar að því sem þið sækist eftir og það er uppskriftin.
Uppskrift af gulrótarköku (ca 20 manna)*
- 4 egg
- 1 1/4 bolli (300 ml) olía
- 2 bollar (400gr) sykur
- 2 tsk vanilludropar
- 2 bollar (250 gr) hveiti
- 2 tsk matarsódi
- 2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 2 tsk kanill
- 3 bollar (330 gr) rifnar gulrætur
- 1 bolli (110 gr) saxaðar pekanhnétur**
- 1/2 bolli (115 gr) mjúkt smjör
- 8 únsur (225 gr) rjómaostur
- 4 bollar (480 gr) flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 1 bolli (110 gr) saxaðar pekanhnétur***
***Sleppti því að setja hnétur út í kremið.
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 175°C og smyrjið ferkantað mót (22x32cm) ég set bara smjörpappír svo ég geti tekið auðveldlega úr og sett á disk.
- Þeytið egg, olíu, sykur og vanilludropa saman með þeytara. Blandið svo þurrefnunum út í og þeytið þangað til blandað saman. Hrærið út í gulrótum og pekanhnétum með sleif og hellið í mótið.
- Bakið í ca 40-50 mínútur eða þangað til að pinni kemur hreinn út eftir að stinga í miðjuna. Leyfið að kólna áður en kremið er sett á.
- Kremið: Setjið öll hráefnin í skál og hrærið saman (ég notaði k-ið á KitchenAid vélinni minni. Hrærið þangað til kremið er orðið létt og kremað. Smyrjið svo kreminu á kökuna með kökuspaða eða því sem hentar 🙂
