Eva vinkona bauð mér að vera gestaskrifari á síðunni sinni og ég ákvað að prufa það núna þegar ég var að gera afmælisköku handa flottum handboltastrák. Ég heiti Karitas og hef síðustu ár verið að dunda mér við afmæliskökur og aðrar skemmtilegar kökur aðallega fyrir börnin mín sem koma með skemmtilegar áskoranir fyrir afmælin sín og líka fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og vini. Það er alltaf gaman að baka og enn skemmtilegra að skreyta, maður lærir af mistökum og það gerir verkefnið bara enn skemmtilegra.
Þessi kaka er hringbotnar með handbolta ofaná. Til að gera bolta áhvað ég að prófa eitt sem ég hef ekki gert áður, ég bakaði í skál. Náði mér í skál sem þolir ofnhitann, smurði það vel og skellti svo deginu í það. Þetta gekk bara ljómandi vel, var aðeins lengur í ofninum en þegar ég baka venjulega hringbotna.
Neðri hlutinn af kökuni eru 2 botnar bakaðir í 26cm hringmóti, þá setti ég saman með smjörkremi á milli og skreytti með því. Ég nota liti frá Wilton og í rauða notaði ég red red litinn. Oft þegar ég er að gera skreytingar þar sem þarf að vera nákvæmni, doppa ég eða sker aðeins í kökuna til að fá viðmiðunarstaði. Ég byrja líka alltaf á dekkri litnum, það er auðveldara að setja hvítt ofaní og á milli rauða því annars getur sá rauði farið að smita.
Ég nota stút nr 17 úr Wilton settinu mínu mjög mikið og er hann notaður á þessa köku, en upp kantana notaði ég stút nr 32
Þá er kominn tími á að gera boltann sjálfan, en ég áhvað að skera út sexhyrninga og setja á boltann, ég teiknaði mér einn sexhyrning, klippti út og skar síðan fondant með pizzahníf eftir mótinu.
Tips: Ég þurka af öllum áhöldum sem ég nota í fondant með röku tisjúi, en það kemur ekki kusk af því eins og á til að koma frá viskustykkjum.
Ég setti síðan saman 2 botna sem ég bakaði í skálini, með smjörkremi á milli og utanum. Stakk síðan 2 pinnum í til að styðja við þegar ég set boltann ofaná kökuna.
Ég skellti svo bara boltanum ofaná kökuna, en ég mæli ekkert endilegga með því. Það kom í ljós að ég er greinilega ekki með próf í bolta gerð, en mér gékk illa að fá sexhyrningana til að passa saman, þannig að ef ég geri svona aftur þá mun ég setja fondant utanum boltan fyrst og setja hann síðan ofaná kökuna og strika boltamynstrið eftir á. Þrátt fyrir allt er ég nokkuð sátt með útkomuna, ég veit að kakan er góð á bragðið og það er nú fyrir öllu.
Hér er svo lokaafurðin!
Hér er uppskriftin mín af skúffukökunni sem ég bakaði í þessa köku en það þurfti 1,5 uppskrift í þessa köku:
(eintak til prentunar)
Uppskrift:
- 600 gr hveiti
- 640 gr sykur
- 8 msk kakó
- 260 gr mjúkt smjör
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk natron
- 2 bollar mjólk
- 4 stór egg
Aðferð:
- Setjið öll hráefnin í skál og hrærið í um 2 mínútur í hrærivél
- Bætið síðan eggjunum við, einu í einu.
- Setjið í ofnskúffu (gott að hafa bökunarpappír í henn til að auðvelda vinnuna og þrifin.
- Bakið við 180°C í ca 40-50mín (gæti verið 30-40 mín fyrir aðra ofna).