• UPPSKRIFTIR
  • BLOGGIÐ
Kökudagbókin
  • UM SÍÐUNA
    • FJÖLMIÐLAR
  • FAQ
  • HAFÐU SAMBAND
  • UPPSKRIFTIR
  • BLOGGIÐ
  • UM SÍÐUNA
    • FJÖLMIÐLAR
  • FAQ
  • HAFÐU SAMBAND
10/09/2011  |  By Eva In Afmæli, Börn, Eftirréttir, Fullorðnir, Hvítur, Sýnikennsla, Unglingar, Uppskriftir

Heimagerðir sykurpúðar

Ég fékk frábæra áskorun á síðunni í vikunni frá Brynju Stefánsdóttur sem ég gat ekki annað en tekið. Sérstaklega í ljósi þess að ég átti öll hráefnin til.

Áskorunin var: Heimagerðir sykurpúðar og hér sést lokaafurðin.

Hún benti mér á uppskrift af About.com en sú uppskrift krafðist þess að nota korn síróp (corn syrup) það er hinsvegar svo illfáanlegt hér heima að ég ákvað að glugga í uppskriftabankann minn. Viti menn ég var búin að eiga sykurpúðauppskrift frá því 2008 en hafði aldrei prufað hana!

Best er að byrja á að taka saman öll hráefn og áhöld (sjá neðst). Það þarf í raun ekki mikið til að gera sykurpúða enda segir nafnið nokkurn vegin til um innihaldið 😉

Ég byrjaði á að setja sykur, glúkósa og vatn í pott og setja á hæsta hita. Munið að setja sykurhitamælinn með en þetta þarf að hita upp að 127°C eða 260°F.

Það tekur um 10 mínútur að ná réttu hitastigi en þetta þarf að sjóða nógu lengi til að vatnið gufi upp og eftir verði sykursíróp. Svona ætti suðan að líta út.

Á meðan suðunni stendur þarf að leggja matarlímsblöðin í bleyti, 9 blöð í 140 ml af köldu vatni.

Veit að þetta lýtur ekki beint girnilega út en plastílátið mitt var eilítið gulleitt þannig að þetta virkar gulara en það er. Einnig þurfið þið að stífþeyta eggjahvíturnar, eins og þið gerið með maregns.

Þegar sykursírópið hefur náð réttu hitastigi, takið þá pottinn strax af hellunni, hellið matarlíminu varlega út í og færið yfir í hitaþolið ílát (t.d. pyrex könnu eins og á myndinni). Þetta er gert til að stoppa suðuna en ef sykurinn verður of heitur fer hann í það sem nefnist “hard crack” stig sem er það sem við viljum þegar við gerum sykurflöskur, brjóstsykur og þess háttar sælgæti en ekki í sykurpúðana.

Hafið hrærivélina í gangi með stífþeyttu eggjahvítunum og hellið vökvanum svo varlega út í meðan hún hrærir.

Þegar allt er komið út í hrærið í um 5-10 mínútur eða þangað til blandan heldur formi sínu þegar þeytaranum er lyft upp (eins og með maregns). Á meðan þetta blandast saman er upplagt að spreyja formið (eða smyrja) með feiti og strá flórsykurs og kartöflumjölsblöndu yfir allt fatið. EKKI spara spreyið eða blönduna því það mun auðvelda ykkur að taka púðana úr þegar þeir eru tilbúnir. Ég notaði stærsta ferkantaða fatið sem ég á og er það um 22 x 33 cm að stærð.

Þegar blandan er til má hella henni í fatið, þurfið eflaust sköfu til að skafa úr skálinni.

Fyrir þá sem vilja hafa púðana jafna þá er hægt að nota kökuspaða til að fletja út og jafna. Ég lét spaðann minn undir heitt vatn og svo beint á til að jafna, mér fannst það virka mjög vel. Svona leit blandan út komin í formið.

Nú kemur að erifðasta hlutanum! Hann er sá að þið þurfið að leyfa þessu að sitja í fatinu í a.m.k. eina klukkustund á meðan blandan þornar og hægt að skera niður í hæfilega bita. Þið getið auðvitað haft þetta einn STÓRAN sykurpúða ef þið viljið 😉 en svona leit þetta út þegar þetta kom úr fatinu.

Svo er bara að byrja skera. Ég mæli með að vera með beittan hníf og þurfti ég að skola minn aðeins á milli þar sem ég var svolítið óþolinmóð og púðarnir ekki alveg “tilbúnir” ef svo má segja en þetta gekk upp og bara hafa nóg af flórsykursblöndunni því það þarf að velta þeim upp úr henni.

Eins og sést byrjaði ég á að skera bara hluta af en endaði svo á að skera rendur og kubba úr þeim.

Þegar púðarnir eru skornir og búið að velta þeim upp úr flórsykurblöndunni er best að setja þá í loftþétt ílát eða bera fram 😉

Þar sem þetta varð töluvert magn af sykurpúðum gat ég boðið fullt af fólki og voru allir sammála um að þeir væru rosalega góðir, dúnmjúkir og OFURsætir!

Líklega velta einhverjir fyrir sér hvort sé ekki hægt að gera sykurmassa úr þessari uppskrift. Ég get ekki sagt til um það að svo stöddu þar sem ég hef ekki prufað það en held að það ætti að vera hægt. Ég hef heyrt að einhverjir hafi verið að gera hann frá grunni hér heima en hef ekki séð uppskriftina þeirra.

Að sjálfsögðu er svo hægt að setja súkkulaðihjúp utanum og þá verða þetta eins og “kossar” ef þið vitið hvað ég á við.

Ég hvet ykkur eindregið til að prufa þessa uppskrift og þætti gaman að heyra frá ykkur hvernig hafi heppnast!

Hér kemur svo uppskriftin og leiðbeiningarnar í stuttu máli.

Uppskrift – Sykurpúðar:

  • 455 gr sykur
  • 340 ml vatn
  • 1 msk glúkósi (liquid glucose) – fæst í Hagkaup
  • 9 stk matarlímsblöð (gelatin)
  • 2 stk eggjahvítur af stórum eggjum (ca 3/4 dl)
  • 1 tsk vanilludropar
  • flórsykur*
  • maísmjöl eða kartöflumjöl*
*Þessu er blandað saman, engin ákveðin hlutföll en ég setti ca 3/4 flórsykur og 1/4 kartöflumjöl.

Áhöld:

  • pottur
  • pyrex kanna eða annað hitaþolið ílát
  • sykurhitamælir
  • hrærivél
  • stórt fat

Leiðbeiningar:

  1. Setjið sykur, glúkósa og 200 ml af vatni í pott. Hitið að suðu og haldið áfram að hita þangað til blandan nær 127°C (260°F).
  2. Á meðan blandan sýður, bleytið matarlímsblöðin í 140 ml af vatni og stífþeytið eggjahvíturnar.
  3. Þegar blandan er tilbúin, takið pottinn af hellunni. Hellið matarlíminu varlega í pottinn og færið svo yfir í hitaþolið ílát til að stoppa suðuna.
  4. Hellið svo blöndunni varlega í hrærivélana með stífþeyttu eggjahvítunum og setjið svo vanilludropana í. Blandan mun svo þykkna hægt og rólega. Þeytið í um 5-10 mínútur eða þangað til blandan heldur lögun sinni á þeytaranum.
  5. Spreyið /smyrjið fatið vel og setjið flórsykurblönduna á meðan blandan þeytist. Hellið svo blöndunni í fatið og leyfið henni að standa í a.m.k. klukkutíma áður en þið skerið hana og berið fram.
  6. Munið að hafa nóg af flórsykursblöndunni til að velta bitunum upp úr.


Print Friendly, PDF & Email

Share this:

  • Email
  • Facebook
  • Twitter
  • Pinterest
corn síróp corn syrup flórsykur glúkósi sykur sykurpúðar

Article by Eva

Previous StoryBrúðarterta með svart/hvítu þema
Next StoryHittingur hobbý-ista 26. september

Related Articles

  • Bolla bolla bolla
  • Sykurpúðakossar

3 replies added

  1. tota 11/09/2011 Reply

    Oh… um leið og ég verð komin með almennilega hrærivél!

  2. Pingback: Sykursætir sykurpúðar! | Cakes of Paradise

    […] þetta! ” Ég blandaði tveimur uppskriftum saman, frá tveimur vefsíðum sem ég fann, hér og hér En hér er uppskriftin eins og ég gerði […]

    Reply
  3. Pingback: Sykurpúðakossar | Kökudagbókin

    […] urðu bleikir sykurpúðar í hinum ýmsu formum. Ég sagði ykkur fyrst frá sykurpúðum fyrir um þremur árum og sannarlega kominn tími á að færa í nýja útgáfu. Ég byrjaði á að gera klassíska […]

    Reply

Leave your comment Cancel Reply

(will not be shared)

LEITA

DAGATAL

July 2022
M T W T F S S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031
« Mar    

NÝLEGAR FÆRSLUR

  • Öðruvísi heimagerð páskaegg
  • Páskaumfjöllun
  • Ferðalagið mikla og ný tækifæri
  • Nýtt útlit
  • Svampbotnar

MERKIMIÐAR

56% súkkulaði 70% súkkulaði air brush bolludagur Brauð brúðarterta brúðkaup döðlur Ferming flórsykur fondant gum paste haframjöl halloween hrekkjavaka hugmyndir hunang hvítur jarðarber karamella karamellur konfekt kókos leiðbeiningar Lodge muffins möndlur pottabrauð pottjárn páskaegg páskar rjómi sara bernhard sjávarsalt skírn smjörkrem sykur sykurmassi síróp sítrónur sörur súkkulaði trufflur tveggja hæða uppskrift
  • UPPSKRIFTIR
  • UM HÖFUND
  • BLOGGIÐ
  • DAGATAL
  • HAFÐU SAMBAND
©Kökudagbókin 2011-2020
loading Cancel
Post was not sent - check your email addresses!
Email check failed, please try again
Sorry, your blog cannot share posts by email.