Loks hafði ég mig í að gera leiðbeiningar fyrir kórónuna sem ég gerði um daginn 🙂 svona leit prinsessutertan út með kórónunni og styttu (úr plasti).
og upprunalega kórónan
á þessa kórónu notaði ég air brush, perluáferð og þannig kom þessi flotti glans. Svona áferð er hægt að gera með spreyjunum sem fást t.d. hjá Allt í köku og mömmur.is.
Hérna kemur svo ferlið:
Þið þurfið um 50 gr af hvítu gumpaste eða fondant og 50 gr af bleiku (eða 100 gr af hvítu, skipta því upp og lita helminginn í þeim lit sem þið viljið). Bleiki sem ég notaði er úr nýju litunum sem Allt í köku var að taka inn. Einnig þurfið þið glas, kefli, svamp og tvö hjartaskurðarmót – eitt lítið og eitt stórt (myndin af áhöldunum klikkaði hjá mér).
Næst þarf að fletja út bleika og skera neðan af svo að kórónan verði slétt að neðan.
Því næst er að gera toppinn á kórónunni og gerði ég það með stóra hjartamótinu, fannst það virka svo vel en auðvitað hægt að gera með hníf, pizzaskera eða öðru sem hentar.
Því næst er litla hjartamótið tekið fram og skorið innan úr kórónunni.
Þá er bleiki hlutinn tilbúinn og best að taka fram þann hvíta. Til að litirnir passi saman finnst mér best að leggja bleika ofan á hvíta því hann á að vera örlítið stærri.
Stóra hjartamótið er aftur notað en nú er skorið aðeins ofan við bleika svona einskonar rammi.
Svo þarf að taka innan úr eins og með bleika.
Svona ætti þetta að líta út þegar allur skurður er búinn. Svo er gott að nota sykurmassalím til að líma saman. Það má einnig gera það áður en bleika er lagt yfir ef ykkur finnst það betra 🙂
Því næst er gott að vefja lengjunni utanum glas eða annað sem styður við meðan kórónan er að stífna upp. Ég setti plastfilmu utanum glasið til að koma í veg fyrir að kórónan festist við glasið.
Svona lýtur þessi út að aftan. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa lengjuna lengri og ná yfir annan endann, þá helst hún betur saman. Getur líka verið smekksatriði.
Svo langaði mig að prufa annað og það var að setja silfurperlur á endana, þá getur verið gott að eiga verkfæri eða hlut sem gerir smá dæld, pensla smá sykurmassalími í og smella perlunum í.
Ef ykkur finnst kórónan ekki nógu stíf, t.d. ef þið notið sykurmassa en ekki gum paste, þá er hægt að vefja plastfilmu utanum meðan hún stífnar 🙂 passið bara að ýta ekki of fast svo komi ekki för.
Það væri gaman að sjá myndir af ykkar kórónum ef einhver hefur gert slíka.