Ég er ávallt á leiðinni að klára leiðarvísirinn að Makkarónuturninum sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkru. Hinsvegar hefur það gengið brösulega þar sem ég er að vinna í öðrum verkefnum. Hef þó ákveðið að birta það sem ég er komin með svo að þið sem hafið beðið fáið eitthvað til að vinna með.
Það sem þið þurfið að hafa er frauðplast keila. Því miður hef ég ekki fundið neina stærri en 28cm á Íslandi en þessi fæst í Litir og föndur. Einnig þurfið þið heilan helling af samsettum makkarónum. Ef ég taldi rétt þurfið þið um 55-60 stk fyrir svona lítinn turn. Ef þið stækkið hann eins og ég geri á meðfylgjandi myndum þurfið þið hátt í 100 stk (til að vera viss um að vera með nóg ef eitthvað klikkar). Að lokum þurfið þið jafn marga tannstöngla til að festa makkarónurnar á.
Byrjið á að festa fyrsta stöngulinn neðst á keilunni en munið að taka mið af makkarónuköku, stöngullinn á að vera aðeins upphallandi en hitta á miðja kökuna. Hér sjáið þið að ég er að nota ósamsettar kökur og er það vegna þess að þetta er sýningarturn en ekki til átu.
Eitt gott ráð er að tryggja að allar makkarónurnar sem á að nota eru mjög svipaðar í stærð. Ég hef lent í smá vandræðum þegar ég geri mismunandi liti. Ég nota talningaraðferðina þegar ég geri þær en stundum er deigið ekki alveg 100% eins milli lita og þá getur það skeikað í stærð. Á myndunum sjáið þið að það myndast eilítið bil á milli. Það gerist af því að kökurnar eru ekki alveg jafn stórar og af því að þær eru bara einfaldar en ekki samsettar. Ef þið viljið ekki að sjáist í hvíta keiluna getið þið sett allskonar krep-pappír eða annað til að hylja hana. Einnig getið þið notað blóm til skreytinga eins og ég gerði í turninum sem birtist í blaðinu.
Haldið áfram að vinna ykkur upp og best að hafa næstu ræð á milli, þannig að röð tvö byrjar á makkarónuskeitum þeirrar fyrstu. Svona haldið þið áfram þangað til þið eruð komin á toppinn.
Svona lítur hann út þegar allar makkarónurnar eru komnar. Næst er að skreyta diskinn og/eða turninn ef þið viljið. Smá samanburður á stækkaðri keilu og venjulegri.
Mig langar annars að deila með ykkur turninum sem ég gerði fyrir föstudagskaffi í vinnunni, hann vakti mikla lukku en ansi líkur þeim sem ég gerði fyrir blaðið.
Gangi ykkur vel og ekki hika við að senda mér línu eða skilaboð á Facebook ef þið hafið einhverjar spurningar.
Sýniturninn verður til sýnis hjá Allt í köku þegar ég næ loksins að klára hann, þangað til verða myndirnar að duga. – kv. Eva