Það hefur verið nokkuð um fjölgun í vinahópnum sem og á vinnustaðnum og gaman að segja frá því að ég fékk þann heiður að gera tvær nafnatertur fyrir ekki svo löngu.
Mig langar að byrja á að segja ykkur frá annarri þeirra sem var fyrir vinkonu mína sem ég kynntist í háskólanum fyrir nokkrum árum og hafa leiðir okkar átt skemmtilega samleið síðan.
Ég játa að þegar hún sagði mér að von væri á litla guttanum var ég pínu spennt að vita hvort ég fengi að gera tertuna þegar að deginum kæmi en vitanlega er það ekki það fyrsta sem ég segi við vini og vandamenn þegar ég fæ skemmtilegar fréttir af lífinu sem “krefst” kökubaksturs í náinni framtíð.
Snúum okkur þó aftur að tertunni sem um ræðir. Þau höfðu samband og kíkt í kaffi til að ræða tertumálin þar sem ég geri sjaldan auðvelt fyrir og hef allt opið. Það er ekkert verk of smátt, of stórt eða of flókið. Í fyrstu atrennu tókst okkur að ákveða hvert innihald tertunnar ætti að vera og hvort hún ætti að vera skreytt með smjörkremi eða sykurmassa en útlitið var ekki alveg komið.
Þau skötuhjúin eru bæði mjög listræn og ekki skemmir fyrir að annað þeirra er grafískur hönnuður svo ég fékk þessa skemmtilegu mynd frá þeim til að fara eftir í bakstrinum og skreytingunni.
Tertan sjálf var djöflaterta með súkkulaði ganache fyllingu á milli og utanum. Tertan var svo skreytt með sykurmassa. Það er frábært að nota ganache á milli og utanum tertur því það er mjúkt en jafnframt stíft sem gefur skarpari línur heldur en smjörkrem, svo sé ekki talað um rjóma!
Ofan á tertuna notaði ég sama gel og ég gerði fyrir sundlaugartertu fyrir allnokkru síðan. Fígúran og skipið var gert úr skreytingamassa (e. gum paste).
Hér má sjá tertuna áður en hún var afhent. Ég lét hana vera á vænum kökudisk þar sem ég var ekki viss hvernig þau vildu setja nafnið með tertunni en það var hernaðarleyndarmál. Tertan átti þó að vísa til nafnsins en ég varð engu nær þrátt fyrir að velta þessu fyrir mér. Betri helmingurinn giskaði þó á fyrra nafnið í fyrstu atrennu.
Næstu tvær myndir sýna svo skrautið í nærmynd og smáatriðin sem mér tókst að ná fram.
Eina fyrirmyndin mín var tertumyndin sem þið fenguð að sjá hér að ofan.
Ég var afskaplega ánægð með útkomuna á öllu saman og langar að enda þetta á því að sýna ykkur tertuna með skrautinu frá hjónunum þar sem sést að drengurinn fékk nafnið Hrafn Elliði.
Vona að þið hafið haft gagn og gaman af! Fleiri uppskriftir og myndir eru væntanlegar innan skamms.
– Eva