Nú er komið að hinni árlegri “súkkulaði” hátíð en við erum einstaklega klár í að halda upp á Páskahátíðina með ofur súkkulaði áti og fjölbreyttum páskaeggjum. Árið 2013 gerði ég litla körfutertu með smáum páskaeggum, áríð 2014 fór ég hefðbundnu leiðina en þó með mismunandi súkkulaðitegundum. Fréttablaðið kíkti einnig í heimsókn það árið og má lesa greinina hér.
Árið í ár var ansi fjölbreytt og skemmtilegt. Páskaeggjagerðin hófst með viðtali með Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur hjá Morgunblaðinu og heimsókn frá Eggerti Jóhanessyni ljósmyndara. Viðtalið og ljósmyndirnar má nálgast á vef mbl.is. Ég fékk einnig frábært tækifæri til að leika mér með nýtt súkkulaði, það er að segja Omnom chocolate en þar var um nóg að velja. Mitt uppáháld er Lakkrís + sjávarsalt ásamt söltuðum möldum + mjólk. Það var þó ekki það eina sem ég prufaði í ár en ég gerði páskaegg úr hvítu súkkulaði frá Nóa Síríus, lituðu súkkulaði ásamt einskonar neta eggi þar sem við sjáum allt innihaldið. Nánar um temprun á súkkulaði.
Hér má sjá aðal eggið í ár. Mér fannst það svo flott svona stakt og tímdi ekki að setja það á fót og þótti skemmtilegra að gera einskonar hreiður fyrir það. Eggið er úr blöndu af 56% síríus konsúm og síríus konsúm Orange.
Hér má sjá hvíta páskaeggið sem ég gerði í ár. Það var mjög auðvelt að vinna með hvíta súkkulaðið frá Nóa Síríus svo ég get hiklaust mælt með því. Munið þó að sýna þolinmæði og varkárni þar sem sem það þarf aðeins lægri hita við temprun.
Tilraunirnar í ár leyndu ekki á sér en ég laumaði í tvö lituð páskaegg, þó bara lítil að sinni. Ég var ekki með nógu mikið hvítt súkkulaði undir höndum svo ég nýtti mér súkkulaðihjúp-súkkulaði (candy melts).
Hér er hinn liturinn í súkkulaðihjúpnum sem ég nýtti mér. Mér fannst páskakanína svo fullkomin að hún fékk að gæjast upp úr egginu til að vera með.
Hér má sjá herlegheitin saman. Hvítt súkkulaði frá Nóa Síríus, Dark Milk + Burned sugar frá Omnom Chocolate og netið er blanda af 56% síríus konsúm og síríus konsúm orange frá Nóa Síríus. Það vantar þó eitt egg á myndina og það er úr lakkrís+sjávarsalt en það lifði því miður ekki til páska þar sem við skötuhjúin kláruðum hvern einasta bita síðustu helgi.
Að lokum var öllum eggjunum pakkað inn í selló og farið með til nánustu ættingja.