Undanfarnar vikur hef ég verið með sítrónu æði ef svo má kalla og set sítrónur, sótrónubörk eða sítrónusafa í hina og þessa rétti (ekki bara kökur og eftirrétti). Ég gerði fyrstu sítrónukókos kökuna fyrir um tveimur vikum en hún var ekki alveg nógu einföld í vinnslu og safarík þannig að leitin hélt áfram. Ég fann svo aðra og blandaði þessum tveim uppskriftum saman og úr varð einstaklega fersk og safarík kaka. Allir sem smökkuðu hana voru hæstánægðir og afar léttir í lund það sem eftir var dagsins 🙂
Hér kemur svo uppskriftin og leiðbeiningar:
Uppskrift að kökunni:
- 1,5 bolli (185gr) af hveiti
- 1/2 bolli (45 gr) kókosmjöl
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- smávegis salt
- 1 msk sítrónu börkur (þurfið safa og börk af einni sítrónu í botnana, fyllinguna og kremið).
- 1 bolli (250 gr) sykur
- 125 gr ósaltað smjör, brætt
- 2 stk egg
- 1 bolli (250 ml) mjólk
*Munið að einn bolli er ílát sem tekur 250 ml, þið getið skoðað nánar um umbreytingar á málum undir praktísk atriði.
Kremið
- 1,5 bolli (185 gr) flórsykur
- 1 bolli (90 gr) kókosmjöl
- 1/2 tsk sítrónubörkur
- 1/4 bolli sítrónu safi*
* Ég notaði ekki alveg 1/4 af bolla, tók um 2 msk af því sem fóru í fyllinguna. Ég bætti hinsvegar 2-4 msk af vatni út í kremið því ég vildi hafa það aðeins blautara þegar ég smurði því á kökuna. Athugið að ef það stendur í skálinni í einhvern tíma þornar það og þið þurfið að bæta við meiri vökva.
Fyllingin (ekki nauðsynleg en gerir hana enn safaríkari):
- 1 stk egg
- 1 msk maís mjöl (cornflour)
- 3/4 bolli (190 gr) sykur
- 120 ml vatn
- 3 msk smjör
- restin af sítrónu berkinum
- 2 msk sítrónusafi
Leiðbeiningar:
- Hitið ofninn í 180°C
- Gerið kökuformið klárt, ég nota smelluform, set smjörpappír í botninn og spreyja hliðarnar með olíuspreyi (t.d. Pam).
- Blandið öllum kökuhráefnunum í eina skál og hrærið með trésleif. Deigið verður frekar lint og virkar örlítið kekkjótt. Hellið því í mótið og bakið í 20-22cm formi í um 40 mínútur eða þangað til kökupinni kemur hreinn út.
- Kremið er gert með því að setja öll hráefnin í hrærivél og hræra saman (ég nota K-ið í KitchenAid en ekki þeytara). Ef ykkur finnst það ekki nógu blautt til að smyrja á kökuna, þá er í góðu lagi að bæta við meira vatni.
- Fyllingin: bleytið upp í maís mjölinu með smá vatni og hrærið svo egginu saman við og leggið til hliðar. Hitið restina af hráefnunum í potti þangað til fer að sjóða, bætið þá eggja/maísmjöl blöndunni við og látið aftur sjóða. Hrærið stöðugt í um 5 mínútur eða þangað til orðið fallega gulleit og farið að þykkna.Takið af hellu og kælið. Ef þið lendið í að eggið hlaupi og fáið hvítar tæjur, ekki örvænta, þið látið fyllinguna renna gegnum sigti. Ég setti fyllinguna í kæli.
- Þegar kakan hefur kólnað getið þið skorið kökuna í tvennt, sett fyllinguna á milli og þakið með kreminu. Að setja kremið er það sem krefst smá þolinmæði og er ekki eins og venjulegt smjörkrem. Þannig að smyrjið smá í einu, það á að sjást í kökuna.
- Ég notaði svo smá auka kókos í lokin til að gera kökuna aðeins girnilegri og frísklegri 🙂
Hér sést svo kakan komin á nýja disknum mínum frá Arca Design.