Þegar áramótin renna í garð er ekki hjá því komist að líta aðeins um farin veg. Ég hef skrifað og deilt uppskriftum með ykkur í um fimm ár, sem er í senn skemmtilegur og merkilegur áfangi og hefur svo margt gerst og breyst síðan. Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja þegar ég hugsa til baka. Kannski ég líti fyrst yfir árið sem er ný liðið því það árið var margt um að vera.
Ég gerði ýmsar tilraunir með OmNom súkkulaði kringum bolludaginn og Páskana. Ég gerði páskaegg fyrir Páskablað Morgunblaðsins, fermingartertur fyrir fermingarblað Fréttablaðsins og brúðkaupstertu fyrir Brúðkaupsblað Fréttablaðsins (sjá fleiri greinar).
Ekki má gleyma fermingartertum vina og ættingja sem fermdu ungviði sín í ár. Því næst tók við svakleg brúðarterta fyrir Snigla vini sem var flutt með dyggri aðstoð vinkonu alla leið í Þykkvabæinn.
Vinir og vinnufélagar bættu heiminn með nokkrum krílum sem fengu öll hver falleg nöfn eins Bríet María, Hrafn Elliði og Úlfur.
Einnig fór ég að huga að einhverju heilsusamlegra millimáli þar sem ég á það til að vera í vandræðum í vinnunni seinnipart dags. Ég fer á æfingu alla virka daga fyrir vinnu og gengur yfirleitt vel að gera morgunmatinn og hádegisnesti en síðdegið reynist mér erfiðara nema þegar ég hef eitthvað aukalega með mér sem ég get nartað í bílnum þegar umferðin er þung. Orkukúlurnar og orkustykkin hafa reynst mér vel og enn betra að bæta auka próteini í uppskriftirnar.
Ég gerði fleiri tilraunir í eldhúsinu og prufaði að gera Skjaldbökur eins og ég sá á ferðalagi í haust, prufaði nýja fyllingu í Franskar makkarónur og komst að því að þeytt söltuð karamella er syndsamlega góð!
Nú er komið að hápunkti ársins… þann 15.desember 2015 fékk ég starfsleyfi fyrir Kökudagbókina með aðstoð Matís og get ég nú gert allskonar konfekt, kökuskraut og kræsingar fyrir ykkur kæru aðdáendur.
Takk fyrir samfylgdina undanfarin ár, ég hlakka til að deila með ykkur uppskriftum, myndum, hugleiðingum og fleira á árinu 2016. – Eva