Um helgina fékk ég loks tækifæri til að prufa tilraunaköku sem ég hafði gert helgina áður. Þó ekki “sama” kakan en sama uppskriftin 😉 Ég bauð örfáum nánum ættingjum í heimsókn síðasta sunnudag og að sjálfsögðu varð ég að bjóða upp á ýmiskonar kræsingar. Góð maregnskaka slær ávallt í gegn hjá minni fjölskyldu og skellti ég því í eina með brúnum maregns (púðursykur) með karamellubúðing og rjóma á milli og karamellubráð yfir. Þar sem ég gerði “aðeins” of mikið af karamellusósu fékk hún að vera með á borðinu 😉 Hérna sést svo kakan áður en ráðist var á hana!
Mörgum þykir oft erfitt að gera maregns en að mínu mati er það eitt það einfaldasta sem hægt er að gera, lykilatriðið er þó að ÞEYTA eggjahvíturnar og sykurinn nógu mikið! Það þarf að byrja á að þeyta eggjahvíturnar þangað til að þær verða að þéttri stífri froðu sem fer ekki úr skálinni sé henni hvolft. Því næst má setja sykurinn út í og hræra þangað til að blandan heldur lögun sinni. Ef blandan sléttist út þegar þeytarinn er tekinn úr (lyft upp úr) þá er ekki búið að þeyta nóg 😉 ég skal játa hér og nú að ég lærði þetta af reynslunni! Ég gerðist eitt sinn svo klár að hella sykrinum út í áður en eggjahvíturnar voru þeyttar. Þið ykkar sem eruð vön að gera maregns hlægið eflaust að mér núna eða kannski bara með mér því ég hlæ enn að þessu í dag 😉 Hér kemur svo uppskriftin (er einnig undir Kökur og kökubotnar):
Maregnsterta, tveir botnar
- 3 eggjahvítur
- 150 gr púðursykur
- 80 gr sykur
- Hitið ofninn í 150°C
- Þeytið eggjahvítur þangað til stíf froða hefur myndast og hægt að hvolfa skálinni án þess að renni úr.
- Bætið sykrinum rólega við og þeytið vel þangað til blandan breytir ekki um lögun þegar þeytari er tekinn úr.
- Smyrjið í tvo botna á einni eða tvær plötur (eftir því hvort ofninn geti bakað eina eða tvær plötur í einu) einnig er hægt að setja í sprautupoka með stjörnustút og gera toppa eins og ég gerði 🙂
- Bakið í miðjum ofni í 40 mínútur
Fyllng
- 2,5 dl rjómi
- 2-3 msk sykur
- 50-100 gr saxað suðusúkkulaði
- 2,5 dl mjólk
- 1 pak royal karamellubúðingur
- Þeytið búðinginn með 2,5 dl af mjólk og leyfið að stífna í ísskápnum í smá stund.
- Þeytið rjómann ásamt sykrinum þangað til vel þeyttur. Bætið svo söxuðu súkkulaði varlega við.
- Smyrjið búðningnum á neðri botninn og svo rjómanum og leggið svo efri botninn á.
Ef þið hafið sprautað maregnsinum þá ætti hún að líta mjög vel út og óþarfi að fara “fela” einhverjar sprungur eða annað sem á það til að myndast. Svona leit kakan út áður en ég hellti karamellusósunni yfir.

Hér kemur annars uppskrift af karamellusósunni fyrir þá sem vilja en hún er fengin úr annarri uppskrift sem fylgdi döðlutertu, helminguð en þessi geymist vel í kæli í 1-2 vikur og fullkomin með ísnum eða öðrum eftirréttum 🙂
Karamellusósa, 1/2 uppskrift:
- 100 gr púðursykur
- 50 gr síróp
- 70 gr smjör
- 3/4 dl rjómi
Brúna rúllutertan
Eins og ég sagði var þetta ekki það eina sem ég gerði. Brún rúlluterta hefur ávallt verið í miklu uppáháldi hjá mér og var það einnig ein af þeim kökum þar sem ég lærði heilmikið af reynslunni. Það skemmtilega við brúna rúllutertu er að hún er rosalega fljótleg og slær oftast í gegn í veislum. Enda hvað er betra en dúnmjúk kaka með fullt af kremi? Hérna sést hvernig hún heppnaðist í þetta skiptið. Kannski er best að taka fram að ein uppskrift er í raun eins og tvær sem eru keyptar út í borð, þ.e.a.s. stærðarlega séð. Spurning hvort sjáist meira af kökudisknum eða kökunni?
Hér kemur uppskriftin:
Brún rúlluterta, ein stór eða tvær minni
- 3 egg
- 1 og 1/5 dl sykur
- 3 msk hveiti
- 4 msk kartöflumjöl (1/2 dl)
- 1 tsk lyftiduft / matarsódi
- 2 msk kakó
- 1 tsk vanillusykur
- Hitið ofninn í 200°C
- Þeytið eggin þangað til þau eru orðin að létt og froðukennd bætið svo sykrinum varlega saman við.
- Sigtið þurrefnin og blandið þeim rólega við eggja&sykur hræruna.
- Hellið í ofnskúffu með smjörpappír og dreifið í þunnt lag, passið að miðjan verði ekki of þykkt og kantarnir of þunnir.
- Bakið neðarlega í ofninum í 5-10 mínútur.
- Þegar kakan kemur úr ofninum hvolfið henni yfir viskastykka sem þið eruð búin að strá sykri yfir (óþarfi að spara sykurinn) 😉
Fylling
- 100 gr smjörlíki
- 3 dl flórsykur
- 1-2 tsk vanilludropar
Þeytið smjörlíki, flórsykur og vanilludropa vel saman. Þeytið þangað til kremið er orðið hvítt en það getur tekið nokkrar mínútur. Ef kremið er of þykkt, þá bætið við 1-3 msk af vatni og það verður mýkra og auðveldara að smyrja því á kökuna.
Þegar kremið er komið á rúllið þið kökunni upp og notið viskastykkið til að hjálpa ykkur. Voila, góð og einföld kaka tilbúin á ca 30 mínútum.
Jarðarberjasúkkulaðiterta
Svo langaði mig til að sýna ykkur tilraunatertuna sem heppnaðist ótrúlega vel en hún var mjög “massív” og gátu fáir fengið sér aðra sneið af henni. Kakan er úr brúnum svampbotnum, súkkulaðimús, ferskum jarðarberjum og súkkulaðismjörkremi. Það má auðvitað skreyta hana eins og hentar, t.d. þeir sem eru góðir í súkkulaði ganashe. Ég á enn eftir að ná tökum á því en þolinmæðin er ekki alltaf minn besti vinur. Því ákvað ég að skreyta hana með smjörkremi og ferskum jarðarberjum 😉 Held líka að þetta hafi veriða alveg nóg af súkkulaði. Hér sést bomban:
Uppskriftin af botnunum er mjög svipuð og af rúllutertunni og er í raun sama uppskrift og af ljósum svampbotn (rúllutertan notar þó bara 3 egg ekki 4) en ég skipti út smá af hveiti fyrir kakó. Þar sem ég bakaði botnana í litlu hringformi dugði einföld uppskrift en ég bakaði hana í tvennu lagi og skar svo botnana í tvennt svo úr urðu fjórir botnar. Fyllinguna notaði ég úr ekta amerískri Ice Box köku sem ég hef gert nokkrum sinnum, hérna kemur hún en ég gerði bara hálfa uppskrift í þessa köku:
Súkkulaðimús (heil uppskrift)
- 4 eggjarauður
- 1/4 bolli sykur
- 2 bollar suðusúkkulaði
- 1/4 bolli smjörlíki (eða smjör)
- 1 og 1/4 bolli rjómi
- 1 tsk vanilludropar
Leiðbeiningar
- Þeytið eggjarauður og sykur vel saman svo úr verði létt og ljóst krem og leggið til hliðar.
- Bræðið smjörlíki og súkkulaði saman í hitaþolinni skál yfir vatnsbaði eða örbylgjuofni.
- Hellið eggjahrærunni og 1/4 bolla af rjómanum út í, blandið vel saman og leyfið að kólna við stofuhita.
- Þeytið restina af rjómanum og vanilludropunum saman blandið svo súkkulaðiblöndunni saman við. Þá eruð þið komin með þessa dýrindis mús.
Ég vara ykkur þó við að best er að hafa eitthvað sem styður við kökuna meðan músin stífnar annars lekur hún út um allt. Ég notaði formið sem ég bakaði botnana í. Súkkulaðismjörkremið er svo það sem ég nota í margar aðrar kökur og uppskriftin er hér. Toppurinn sem ég notaði tilað gera “rammann” eða “borðann” um kökuna er frá Wilton #18. Ættuð í raun að geta notað hvaða opna stjörnutopp sem er, en betra að hafa hann aðeins minni ef þið vijið hafa hann svona fíngerðan.
Æðislega girnilegt allt saman hjá þér! Ég hef einmitt átt í erfiðleikum með marengs, hlakka til að prufa að gera þannig aftur eftir að lesa þessar fróðlegu upplýsingar!
Takk takk 🙂 en já vonandi hjálpar þetta, mátt gjarnan leyfa mér að heyra hvernig fer næst þegar þú prufar að gera maregns.