Fyrir stuttu fékk ég tækifæri til að prufa nýja skreytingaraðferð sem hefur verið vinsæl meðal þeirra sem gera mikið af smjörkremskökum, ég nefni þetta smjörkremsmyndir en enska heitið er “frozen buttercream transfer”. Það sem er hægt að gera með þessari aðferð er alveg ótrúlega fjölbreytt og einfalt.
Ég man ekki alveg hvar ég sá þetta fyrst en man þó sérstaklega eftir þessu myndbandi frá Wilton og ef þið sláið enska heitinu í leitarvél fáiðþið upp allskonar efni sem tengist þessu. Mitt ráð fyrir þá sem eru að byrja fikra sig áfram í þessu er að velja sér einfalda mynd til að fara eftir og færa sig svo yfir í erfiðari ef fyrsta gekk vel. Annars á “æfingin skapar meistarann” ávallt vel við þegar kemur að bakstri og kökuskreytingum.
Ætla annars að leyfa myndum að tala fyrir sínu, myndin sem varð fyrir valinu var af persónu úr Toy Story teiknimyndunum.
Byrjið á að prenta út mynd og munið að flippa henni (spegilmynd) ef það skiptir máli hvernig myndin á að birtast eða ef það eru stafir því myndinni er svo snúið við í lokin. Hérna er ég búin að festa pappírinn og smjörkrem yfir á borði.
Gott er að hafa áhöldin klár áður en byrjað, á ég þá við sprautupokana, smjörkremið (allir nauðsynlegir litir) og eftir því. Ég notaði yfirleitt hringlaga stúta #2 og #3. Hægt er að nota stút #7 til að fylla inn í stærstu hlutana. Matarlitina hef ég flesta fengið hjá þeim systrunum í Allt í köku.
Þessi græja er svolítið í uppáhaldi hjá mér þegar ég vinn með marga sprautupoka í einu.
Ég byrjaði á öllum svörtum útlínu fyrst.
Svo fyllti ég inn í línurnar eftir því sem átti að vera í forgrunni. Hérna er ég búin með svartar línur, rauðu rendurnar í skyrtunni, skyrtuna sjálfa og buxurnar.
Hér er búið að fylla inn í alla stærstu fletina eins og hestinn. Munið að reyna forðast loft undir með því að sprauta eins þétt og þið getið.
Þegar ég var búin að fylla inn myndina sjálfa setti ég hvítt smjörkrem til að mynda smá ramma.
Ég setti svo hvítt bak til að hafa þetta þykkra og sterkara. Þessum hluta getið þið sleppt ef þið viljið ekki mikið upphleyfta mynd. Þá mæli ég með að nota frekar royal icing heldur en hefðbundið smjörkrem því það harðnar mikið fyrr og er töluvert sterkara. Geymið myndina svo í frysti í nokkrar klukkustundir eða vikur í vel lokuðu íláti.
Svona varð afraksturinn. Þarna sjáið þið hvað ég átti við með spegilmynd og ramma. Ef kakan sjálf er í einhverjum lit getið þið auðvitað fyllt inn í myndina með þeim lit frekar en hvítum.
Hérna sést myndin svo komin á kökuna. Ég gerði kökuna sjálfa einfalda og stílhreina því mér fannst myndin poppa svo mikið upp. Þetta var mín fyrsta tilraun og sést hvernig smá loftlínur hafa myndast þegar ég var að fylla inn í stærri hlutana. Þetta er hægt að forðast með því að vanda sig. Einnig er hægt að gera smá lagfæringar með pensli eins og vinkona mín gerði. Endilega skoðið myndirnar hér að neðan til að sjá hvernig Karitas vinkona mín fór að því að gera engil með sama hætti.