Sunnudagar eru oft nýttir sem kózý dagar á mínu heimili þar sem slökun er í fyrirrúmi. Eftir geðveiki vikunnar var ég þó ekki í miklum bakstursgír í morgun svo bóndinn tók sig til og skellti í stökkar belgískar vöfflur handa okkur sem brögðuðust hreint út sagt frábærlega.
Það verður að játast að það þarf smá þolinmæði í þessa en ég fullvissa ykkur um að hún er alveg þess virði.
Það þarf að byrja á að gera deigið og leyfa því að hefast í um 1,5 klst áður en hægt er að hefjast handa við að gera góðgætið sem tekur skamma stund þegar allt er komið af stað.
Gott er að vigta degið en það eiga að fást um 10-12 vöfflur úr hverri uppskrift. Kallinn vigtaði hverja sem var 75 gr og fengust 12 stk.
Ég tók nú ekki tímann á vöfflunum en við vorum með járnið stillt á 2-3 (lægra en vanalega) og bökuðum þar til sykurinn bráðnaði og vöfflrunar brúnar og stökkar.
Uppskriftin (Útprentanleg):
(upprunalegu uppskriftina má finna hjá Baker Bettie)
- 170 ml mjólk
- 1 poki ger (eða 2 og 1/4 tsk)
- 85 gr ósaltað smjör, við stofuhita
- 60 gr strásykur
- 3/4 tsk salt
- 1 stórt egg
- 400 gr hveiti
- 170 gr perlusykur (grófur sykur sem fæst í Hagkaup)
Aðferð:
- Velgið mjólkina í ca 40-42°C og setjið gerið út í. Leyfið að sitja í um 5 mínútur eða þangað til froða myndast.
- Hrærið saman smjöri, strásykri, salti og eggi með písk í hrærivélaskál.
- Hafið deigkrókinn klárann á hrærivelinni og blandið svo saman hveiti og germjólkurblöndunni. Byrjið á vægum hraða og setjið svo á miðlungsstillingu í um fimm mínútur eða þangað til deigið fer að mynda kúlu. Degið mun virka klæistrað til að byrja með en lagast eftir að það hefur verið hnoðað. Ef ykkur finnst það of blautt má bæta við smá hveiti, hámark 1 msk í einu.
- Færið deigið yfir í hreina skál, setjið viskastykki eða plastfilmu yfir og leyfið að hefast í 1,5 klst, deigið ætti að ná að tvöfalda eða þrefalda stærð sína á þeim tíma.
- Setjið deigið aftur í hrærivélaskál og blandið saman perlusykrinum við deigið þangað til allt hefur blandast saman.
- Rífið deigið í búta, ef þið viljið vera nákvæm getið þið vigtað um 75-80 gr fyrir hverja en það gera 12 vöfflur.
- Hitið belgískt vöfflujárn, mæli með að hafa miðlungshita þar sem sykurinn hitnar vel.
- Takið úr vöfflujárninu þegar þær eru orðnar brúnar og stökkar, en þó ekki of brúnar. Passið að losa þær með gaffli því sykurinn getur auðveldlega brennt berar fingur.
- Berið þær fram með ykkar uppáháldsmeðlæti. Ég mæli með ferskum berjum, Nizza súkkulaðihnétusmjöri, hungangi, rjóma eða öðru sem ykkur þykir gott.
Verði ykkur að góðu!