Hér kemur aðeins útfærðari útgáfa af súkkulaði trufflum. Þetta er í raun aðeins meiri fyrirhöfn og þrennskonar súkkulaði ásamt niðursoðinni mjólk (e. condensed milk).
Þessar eru ótrúlega góðar þar sem súkkulaðið blandast vel saman og saltið gefur þessu punktinn yfir i-ið.
Uppskriftin er fengin frá hinum frábæra bloggara The Pioneer Woman, smellið hér fyrir upprunalega uppskrift.
- 230 gr dökkt súkkulaði (t.d. 70% sírius konsúm eða bittersweet frá Chirardelli sem fæst í Kosti)
- 230 gr meðal dökkt súkkulaði (t.d. 56% sírius konsúm eða semisweet frá Chirardelli sem fæst í Kosti)
- 1 dós niðursoðin sæt mjólk (Sweetened Condensed Milk)*
- 1 msk vanilludropar
- 230 gr rjómasúkkulaði til að þekja trufflurnar
- sjávarsalt, t.d. flögusalt frá Norðursalt
* Þessi getur verið illfáanleg hér heima. Það er hægt að gera heimagerða með því að blanda sykri og mjólk saman og sjóða í nokkurn tíma.
Aðferð:
- Setjið dökkt og meðal dökkt súkkulaði í skál yfir vatnsbaði og bíðið eftir að byrji að bráðna
- Hellið sætu mjólkinni yfir allt saman áður en þið byrjið að hræra í súkkulaðinu
- Hrærið saman þangað til þetta er farið að blandast vel saman. Áferðin verður mögulega svolítið furðuleg en lagast með vanilludropunum.
- Bætið vanilludropunum við og blandið vel saman, mun myndast gljái á súkkulaðiblöndunni.
- Takið af hitanum, setjið álpappír yfir og geymið í ísskáp í ca 4 klst eða yfir nótt.
- Ef geymt í kæli yfir nótt gæti þurft allt að 2 tíma til að ná stofuhita tl að get unnið með það og búa til kúlur.
- Bræðið rjómasúkkulaðið og þekjið kúlurnar.
- Setjið smá saltflögur yfir meðan súkkulaðið er bráðið svo saltið haldist á trufflunum.
- Berið fram á fallegu fati, gjafaöskju eða mini muffins formum eða því sem ykkur dettur í hug.
Minni á að það er ávallt velkomið að senda mér línu ef þið hafið spurningar eða athugasemdir, hvort sem er gegnum, vefinn, tölvupóst eða Facebook og ég reyni að svara eins fljótt og ég get.
Kveðja, Eva