Á miðvikudagskvöldið fékk ég til mín rosalega hressar skvízur úr skólanum og fannst mér tilvalið að prufa eitthvað nýtt til að bjóða þeim. Það varð rafmagnslaust rétt áður en þær komu en sem betur fer var ég búin með baksturinn 😉
Ég var búin að gera Rósartertuna með lóðréttu lagskiptingunni fyrir stuttu og ákvað að leyfa henni að fljóta með en bauð að sjálfsögðu upp á margt annað. Fyrir valinu varð brauðréttur sem ég geri oft, súkkulaðikexkaka og tvennskonar muffins.
Hér má sjá súkkulaðikexkökuna
og hérna má sjá muffins kökurnar
sama tegund af muffins en önnur tegund af skrauti
Muffins kökurnar voru hrikalega einfaldar, það er að segja kökurnar sjálfar en hluti af skreytingunum var aðeins tímafrekari. Grunninn tók ég úr bókinni sem ég sagði ykkur frá um daginn 200 cupcakes eftir Joanna Farrow.
Það var svolítið skemmtilegt að gera jarðaberjaskreytinguna því kakan er ekki öll þar sem hún er séð fyrr en bitið er í hana. Hérna sjáið þið ferlið fyrir jarðaberja-rjóma múffurnar en hinar voru nokkuð einfaldari og læt ég leiðbeiningarnar með þeim duga að sinni.
Eftir að kökurnar hafa bakast og verið kældar þarf að skera holu ofan í hverja og eina með beittum hníf.
Gott er að hafa holurnar í stærri kantinum, þessi á myndinni er frekar lítil og endaði ég á að hafa þær aðeins stærri.
Því næst eru jarðarberin gerð klár og þau skorin í þunnar sneiðar.
Að lokum skal fylla upp í holurnar með rjómanum, jarðarberunum raðað eftir kökunni og rifsberjahlaupinu penslað yfir (ég notaði Jello þar sem ég átti ekki rifsberjahlaup).
Hér má svo sjá lokaafurðina
Uppskriftir
Vanillu muffins (12 stk)
- 150 gr smjör/smjörlíki
- 150 gr sykur
- 170 gr hveiti*
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 3 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 300 gr jarðarber
- 150 ml rjómi
- 2 tsk sykur
- 1/2 tsk vanilludropar
- 4 msk rifsberjahlaup
- 1 msk vatn
Þeyttu rjómann ásamt sykri og vanilludropum þangað til það myndast lausir toppar. Fylltu holurnar vel og þrýstu aðeins niður með teskeið. Raðaðu jarðarberjunum á.
Hitaðu rifsberjahlaupið með vatninu í potti og penslaðu því yfir þegar það er bráðið. Best er að geyma kökurnar í kæli áður en þær eru bornar fram.
- 1 eggjahvíta
- 4 msk ferskur appelsínusafi*
- 175 gr flórsykur
- Annað skraut t.d. silfurkúlur
Settu flórsykurinn, eggjahvítuna og safann í hitaþolna skál. Settu hana svo yfir pott með sjóðandi vatni og þeyttu saman með rafmagnsþeytara (yfir sjóðandi vatninu) í 7 mínútur. Taktu svo skálina af og þeyttu í aðrar 2 mínuru. Því næst geturu sett kremið á kökunar með kökuspaða eða öðru áhaldi og reyndu að mynda einskonar snúningþ Hægt að skreyta að vild 🙂
Þetta krem er áætlað fyrir 18 kökur og því verður eflaust einhver afgangur ef gerðar eru 12.
Súkkulaðikexkaka (uppskrift úr GoodFood101, cakes & bakes)
- 200 gr digestive kex
- 100 gr smjör/smjörlíki
- 3 msk sýróp
- 2 msk kakó
- 50 gr rúsínur
- 100 gr dökkt súkkulaði (t.d. suðusúkkulaði)
- Byrjaðu á að smyrja 18 cm hringmót (ég spreyjaði með feiti og setti smjörpappír í botninn).
- Settu kexið í plastpoka og brjóttu það niður með kökukefli eða öðru ´haldi niður í litla mola.
- Bræddu smjörið og sýrópið í potti (eða örbylgju), hrærðu svo kakóinu og rúsínunum út í. Taktu pottinn af hellunni og hrærðu svo kexinu út og blandaðu öllu vel saman.
- Settu allt í kökuformið og pressaðu vel niður svo kakan verði þétt og góð.
- Að lokum skaltu bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði og hella yfir kökuna og í kæli í 30-60 mín áður en borið fram. Það er hægt að geyma þessa í allt að eina viku í kæli í álpappír.
Hér fylgir svo ein mynd af báðum tegundum saman, sumarlegt ekki satt?
og önnur af súkkulaðikexkökunni
Það er að sjálfsögðu tilvalið að hafa rjóma með súkkulaðikextertunni en hún er einnig afar ljúffeng ein og sér eða með jarðarberjum.