Fyrr í vikunni gerði ég allskonar sólblóm fyrir fermingartertu og ætlaði ég að birta myndir hér á sumardaginn fyrsta en þar sem flensan náði mér hefur það aðeins dregist. Mér finnst afar gaman að gera skraut á kökur þar sem það er oft ekkert sérstakt eitt og sér eins og kakan sjáf en þegar hvorutvegja er sameinað myndast ótrúlegt listaverk. Ég var beðin um að hafa blómin í ákveðnu litaþema sem var í senn skemmtilegt og verðugt verkefni og fannst mér útkoman mjög góð.
Eins og svo oft þá geri ég yfirleitt fleiri en færri því það er mín reynsla að slys gerast og þau geta brotnað, dottið í gólfið eða annað stórfurðulegt gerst. Mæli ég því með að þið gerið a.m.k. fimm auka stykki til öryggis. Hér eru nokrar myndir af blómunum. Ég notaði sólblómamót (4 stærðir), sigti, gum paste, grunna eggjabakkadýnu, sykurmassalím (úr Tylose) og AmeriColor matarliti. Litirnir sem ég notaði voru túrkish, chocolate brown, golden yellow, terracotta og orange (Wilton).
Eggjabakkadýnun er notuð til að gera blómin líflegri. Þegar búið er að skera þau út með skeranum eru þau sett á eggjabakkadýnuna til að ná réttri lögun og hún hjálpar til við að lofta um blómin og þurrka/herða þau.
Smá nærmynd, hérna sést vel hvað sigtið gerir mikið fyrir miðjuna á blóminu. Munstrið í blóminu sjálfu kemur úr mótinu.
Mér fannst litablandan vera svo góð að ég tók alltof margar myndir eins og ég á það til að gera þegar eitthvað heppnast vel 😉
Að lokum ein tekin ofan frá. Sólin var farin að setjast á þessum tíma og þess vegna komu þessir miklu skuggar sem þið sjáið.
Ég er annars með geðveika kókostertu í ofninum, ætla athuga hvort ég fái ekki leyfi til að deila uppskriftinni með ykkur og mun þá setja hana inn skreytta með nokkrum blómum sem ég átti afgangs.
Rosaflott blóm, og gaman að leika með þetta : -)