Fyrir þó nokkru sagði ég ykkur frá köku sem ég gerði og voru á henni sykurflöskur og sykurklakar. Ég lofaði að setja inn uppskriftir og leiðbeiningar að slíku kökuskrauti og hérna koma smá upplýsingar um sykurklakana.
Þá er í raun hægt að gera á nokkra vegu og fá mismunandi gerðir (tæra) af klökum. Uppskriftin sem ég hef notað hljóðar upp á
- 3 dl af sykri
- 1,5 dl af vatni
Þessu tvennu er skellt í pott og hitað að 280°F eða 137°C.
Best er að hafa sykurhitamælir því að það mikilvægasta í þessu er að ná réttu hitastigi svo það nái ákveðnu hörðnunarstigi (hard crack stage). Eins og að gera heimagerðan brjóstsykur.
Ef sykursírópið hitnar ekki nægilega mikið þá verður þetta seigt og harðnar ekki eins og brjóstsykur. Byrjið á að leysa sykurinn alveg upp í vatninu áður en þið leyfið suðunni að koma upp. Hrærið ekki í með viðaráhöldum því þau geta gert klakana gulleita.
Þegar sírópið hefur náð réttu hitastigi skal taka pottinn strax af hellunni og leggja hann stutt í stærri pott fullan af köldu vatni. Þetta er gert til að stöðva hitann, forðast bruna og að klakarnir verði gulleitir. Því næst er þessu hellt í mót, álpappír eða það form sem verið er að nota. Ég hef nýtt mér gömul klakamót, sett álpappír yfir þau, þrýst léttilega niður svo álpappírinn verði örlítið hólfaður. Spreyjað með smá fituspreyi svo sé auðvelt að ná þeim af og beðið í svona 10-15 mínútur eftir að þeir kólni. Á þessari mynd eru þeir aðeins búnir að standa í örfáar mínútur og virka nokkuð tærir en þeir munu kristallast þegar þeir harðna og verða mattir.
Þessa uppskrift hef ég eingöngu notað í sykurklaka því þeir verða mattir og henta vel til að hylja ef kremið undir er dökkt. Til þess að fá tæra klaka þarf annaðhvort að nota “anti” kristöllunarefni eins og Cream of tartar eða því um líkt.
Einnig er hægt að nota vörur eins og Isomalt kristalla eða Isomalt stangir. Isomalt kristöllum er blandað saman við smá vatn og hitað á svipaðan máta og ég lýsti hér á undan. Isomalt stangir er hinsvegar hægt að hita í örbylgunni eða ofni í ofnföstu móti (t.d. pyrex könnu) og þarf bara að hita upp að 150°C en þá er hægt að vinna með það.
Isomalt er notað af helstu kokkum og bökurum víðsvegar um heiminn og með því að nota það er hægt að ná fram kristaltæru sykurskrauti t.d. ef ætti að gera gimsteina eða hvað sem manni dettur í hug. Kosturinn við að nota Isomalt er líka sá að það verður ekki jafn klístrað og þegar unnið er með sykur og vatn. Rakinn í loftinu gerir það að verkum að þetta getur klístrast mikið, svipað og gerist með brjóstsykur í poka ;). Einnig er hægt að kaupa tilbúna “pakka” sem eru með öll blöndunarefni, liti, bragð osfrv. Allt eftir þörfum hvers og eins.
Læt hérna fylgja með mynd af tertunni sem ég gerði handa kærasta mínum í febrúar sem var með svona sykurklökum, þá sjáið þið betur hvað ég á við með möttum klökum.
Næsta færsla verður svo um flöskurnar sem eru á kökunni, uppskrift og leiðbeiningar 🙂
Pingback: Bjór sykurflöskur | Kökudagbókin
[…] er hægt að gera á nokkra vegu eins og sykurklakana en besta hráefnið sem ég hef unnið með hingað til eru Isomalt stangir bræddar í […]
Pingback: Duff bjórflöskukaka | Kökudagbókin
[…] á Duff bjórflösku kökunni sem ég hef verið að minnast á í síðustu tveimur færslum um sykurklaka og […]