Maí síðastliðinn gerði ég skemmtilega tertu fyrir son vinkonu minnar sem var að fermast. Hann er mikill Tae Kwon Do maður og varð því terta í formi Tae Kwon Do galla alveg að hitta í mark. Hugmyndin að tertunni kom að einhverju leiti frá Kökuhúsinu þar sem þau gerðu afar flotta júdó galla köku í vor.
Kakan var djöflaterta með súkkulaðismjörkremi á milli. Hún hefur alltaf verið afar vinsæl og hentar flestum ef ekki öllum veislugestum.
Ég bakaði tvær skúffur, setti krem á milli og skar svo til áður en ég smurði kremi á alla kökuna.
Næst var að fletja út sykurmassan. Fyrir svona stórar kökur er gott að hafa stórt kefli en ég nota yfirleitt Wilton sílicon keflið til að byrja með og klára svo með stóra viðarkeflinu mínu og nota það jafnframt þegar ég flyt massann af borðplötunni yfir á kökuna.
.
Til að ná áferðinni nýtti ég mér mynstur”mottu” úr plasti sem er þrýst á massann. Það er ekki verra að hafa massann örlítið þykkri en þó ekki of þykkann svo sé minni hætta á að hann slitni en náist samt að setja í hann mynstur án þess að hann rifni.
Þegar massinn var kominn yfir og ég búin að ná áferðinni þá skar ég til með pizzaskera svo kantarnir væru snyrtilegri.
Þegar hér er komið vantar mig mynd af því þegar ég gerði skrautið á tertuna en læt nærmyndir duga að þessu sinni. Ég notaði matartússliti til að skrifa stafina, teikna myndirnar og lita það sem þurfti á merkingunum.
Ég notaði sömu mynsturmottuna á beltið. Slaufan er gerð með því að hafa einn langan, eða tvo stutta, fara yfir tertuna. Þeir eru teknir saman í miðjunni og svo smá biti settur þver yfir. Endarnir sem ná svo niður á gallann var stungið undir.
[hr]