Einföld uppskrift dugir fyrir um 15 manns.
Botnar:
- 200 gr 66% Madagascar súkkulaði frá Omnom eða 70% papua new guinea frá Omnom
- 250 gr ósaltað smjör
- 350 gr púðursykur
- 5 egg
- 140 gr hveiti, sigtað
- 1,5 tsk vanilludropar
Passið að hafa öll hráefnivið stofuhita áður en þið byrjið!
Aðferð:
- Smyrjið tvö há 15cm hring form og klæðið þau með smjörpappír
- Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og leggið til hliðar
- Hrærið saman smjör og púðursykur
- Þeytið eggin létt áður en þeim er blandað saman við smjörið og púðursykurinn
- Blandið súkkulaðibráðinni saman við allt saman og hrærið.
- Bætið hveitinu saman við með sleif eða spaða.
Bakið í tveimur 15cm hring formum við 140°C með viftu (160°C án viftu) í miðjum ofni í 40-45 mínútur. Ef þið eruð með aðra stærð dragið frá eða bætið við ca 20 mín við baksturinn fyrir hverja 5cm breytingu á stærð formsins. Leyfið kökunni að kólna alveg í forminu áður en hún er sett saman. Kakan á að vera svolítið blaut eins og frönsk súkkulaðiterta.
Súkkulaðiganache smjörkrem
Uppskrift:
- 175 gr 66% Madagascar súkkulaði frá Omnom eða 70% Papua New Guinea frá Omnom
- 125 ml rjómi
- 250 gr ósaltað smjör
- 500 gr flórsykur
- 1 tsk Madagascar vanilludropar
Aftur best að hafa öll hráefni við stofuhita.
Aðferð
- Hitið rjóman að suðu (froða myndast við jaðarinn) og hellið yfir brytjað súkkulaðið
- Leyfið að standa í um 30 sekúndur blandið svo vel saman þangað til slétt og fínt. Leggið til hliðar og leyfið að kólna.
- Hrærið á meðan smjörið, vanilludropana og flórsykurinn.
- Blandið súkkulaðibráðinni saman við smjörkremið með hrærivél. Þegar þetta er vel blandað slétt og fínt er kremið tilbúið.
Royal Icing til skreytingar:
- 1 stk eggjahvíta úr miðlungsstóru eggi
- 350 gr flórsykur, sigtaður ef þarf
- Safi úr 1/2 sítrónu
Aðferð:
- Þeytið eggjahvítu léttillega þangað til froða myndast.
- Blandið flórsykrinum saman við, hrærið rólega í hrærivél þangað til sæmilega blandð, þá á miðlungshraða í um 1 mínútu.
- Að lokum er sítrónusafanum bætt út í hrært á miðlungs til háaum hraða í 1 mínútut til viðbótar.
Athugið að Royal Icing harðnar fljótt og því um að gera setja í lokað ílát eða plastfilmu yfir ef það er ekki notað strax.
Sæl
Ég er að fara að skíra í maí og mig langar að nota þessa uppskrift fyrir skírnarkökuna. Ég var að velta fyrir mér hvort þú setjir sykurmassan beint yfir súkkulaði smjörkremið og hvort það komi þá ekki dökkur blær í gegnum sykurmassan ?
Kv. Unnur
Sæl Unnur,
Stutta svarið er já það gerði ég með þessa tertu. Oftast nota ég sama krem utanum terturnar og ég hef á milli botnanna, hvort sem er ljóst eða dökkt krem. Mér hefur ekki þótt það skína í gegn hvort sem er dökkt eða ljóst undir nema ég sé með extra þunnan sykurmassa yfir tertuna en þá er líka meiri hætta á að hann rifni.
Ég játa þó að krem með jarðarberjum, hindberjum eða örðum sterk lituðum ávöxtum hafa stundum sést í gegn. Þá hef ég frekar sleppt ávextinum sjálfum í kremið sem fer utanum tertuna en notað safann til að fá bragðið.
Kv. Eva